Innilega til hamingju og gleðileg jól!

Jólaútskriftin okkar fór fram á föstudaginn og var hún haldin hátíðleg í Borgarholtsskóla. 9 nemendur útskrifuðust frá afreksíþróttasviðinu ásamt fleirum sem höfuðu tekið einn eða fleiri áfanga með okkur. Við óskum þeim öllum innilega til hamingju með áfangann!

Nemendur fengu púlsúr IGNITE frá POLAR sem viðurkenningu á þessum áfanga eins og hefð hefur verið fyrir.

Hér er svo hópurinn glæsilegi að athöfn lokinni ásamt verkefnisstjóra og skólameistara.

Frá vinstri, Sveinn verkefnisstjóri, Arnór, Viktor, Hrannar, Grímur, Nikulás, Kristín, Sigurður, Þórunn og Lovísa ásamt Ársæli skólameistara.

Hvaða þjónustu fá nemendur á líkamlegum æfingum á afreksíþróttasviðinu?

pisitll eftir Valgerði Tryggvadóttur sjúkraþjálfara og Svein Þorgeirsson verkefnisstjóra

Valgerður er sjúkraþjálfari hjá Styrk ehf. og á afreksíþróttasviði Borgarholtsskóla.

Styrkteymi Afreksíþróttasviðs Borgarholtsskóla samanstendur af reyndum íþróttafræðingum og sjúkraþjálfara. Unnið er markvisst að því að kynna fyrir nemendum mismunandi þjálfunaráherslur til að hámarka árangur sinn í íþróttum. Það er lögð rík áhersla á að þau þekki líkama sinn og læri inn á sín mörk hvað þjálfunarálag varðar til að vinna gegn álagsmeiðslum. Þjálfarar mæta þeim því þar sem þau eru stödd í sinni íþrótt með tilliti til íþróttar og aðstoða við að stýra álaginu og æfa framhjá meiðslum.

Í þjálfuninni er farið yfir mikilvægi góðs grunnþols og þreyta nemendur þolpróf í upphafi annar.  Ef þörf er á fá nemendur leiðbeiningar varðandi hvernig má bæta þolið. Þolþjálfun bætir frammistöðu íþróttamannsins og hefur einnig forvarnargildi gagnvart meiðslum. Gott grunnþol flýtir fyrir endurheimt og gerir okkur kleift að klára æfingar og keppnir með góðri tækni og líkamsbeitingu. Það gerir það að verkum að við höfum úr fleiri hreyfingum að velja til að bregðast við mismunandi áreiti í keppni og drögum því úr endurteknu álagi á ákveðin svæði. Einnig bætir gott þol svefn og getur haft jákvæð áhrif á andlega líðan og einbeitingu til náms og keppni.

Algeng ástæða meiðsla við keppni er þegar leikmenn þurfa að stoppa hreyfingu sína skyndilega og því er farið vel yfir bremsuþátt hreyfinga í þjálfun okkar hjá afrekinu. Aðrir þættir sem lögð er rík áhersla á eru snerpa og viðbragð, tækni við almennar styrkjandi æfingar, hlaup og hopp. Stuðst m.a. við viðurkennt stökkprógramm sem heitir Sportsmetrics og sérstaklega hannað til að draga úr meiðslum og kenna uppstökks og lendingartækni í stigvaxandi útfærslum.

Þegar meiðsli gera vart við sig er nauðsynlegt að draga tímabundið úr álagi á meiðslasvæðinu. Það er mjög mikilvægt að draga ekki úr almennu æfingaálagi samhliða því. Ef það er dregið úr almennu æfingaálagi við meiðsli er hætta á að íþróttamaðurinn sé ekki í standi til að hefja æfingar og keppni af krafti aftur þegar búið er að vinna með meiðslin sjálf og hann verður því útsettari fyrir endurteknum meiðslum. Í meiðslum þarf íþróttamaðurinn því að taka ábyrgð á þjálfun sinni og vera hugmyndaríkur við að finna æfingar sem gera honum mögulegt að æfa af fullum krafti án þess að setja álag á meiðslasvæðið. Sjúkraþjálfari er til staðar á öllum æfingum afreksíþróttasviðsins til að ráðleggja nemendum varðandi meiðsli og æfingar.

Auk eftirlits sjúkraþjálfara með æfingum gefst nemendum kostur á einstaklingstíma í sjúkraþjálfun, utan skólatíma og án biðtíma, hjá Styrk sjúkraþjálfunarstofu á Höfðabakka 9. Best er að panta tíma í gegnum netfangið valgerdur@styrkurehf.is.

Afrakstur gildisvinnu

Hér að ofan má sjá afrakstur gildisvinnunar frá því í fyrstu lotu. Þarna eru fullyrðingar nemenda sem lýsa því best hvernig þau sjá viðkomandi gildi. Gildin voru skrifuð af nemendum, flokkuð af kennurum og svo að lokum kusu nemendur þær fullyrðingar sem þóttu eiga best við hvert gildi.