Gróska í faraldri

Vikurnar áður en samkomubannið tók gildi fjallaði fræðsluþema afreksíþróttasviðsins um gróskuhugarfar (e. growth mindset). Rannsóknir hafa sýnt að með fræðslu um eiginleika og kosti þessa hugarfars má bæta árangur í leik og starfi. Þetta hugarfar hefur nefnilega tengingu við svo margt sem við fáumst við í daglegu lífi og í okkar tilfelli skóla og íþróttum.

            Það má til einföldunar stilla upp tveimur valkostum við það hvernig við nálgumst erfið verkefni eins og áskoranir og mistök. Við getum litið á þær sem ógn og þannig forðast þær og kviðið fyrir þeim. Sú nálgun hefur verið kölluð fastmótað hugarfar (e. fixed mindset) og er það ekki vænlegt til árangurs. Hún leiðir til þess að við höldum okkur við það sem við vitum að við getum, prófum fátt nýtt og förum síður út fyrir þægindarammann. Þetta kemur heim og saman við helstu einkenni fastmótaðs hugarfars – það er að hafa ekki þá trú að viðkomandi geti tileinkað sér þá færni sem til þarf.

            Þau okkar sem hafa ræktað með sér gróskuhugarfar í mistökum og áskorunum takast á við mistök og áskoranir á annan hátt. Þó áskorunin sé mikil og færnin ekki til staðar þýðir það ekki að svo verði alltaf hafi viðkomandi tileinkað sér gróskuhugarfar. Hann trúir því að mistök séu hluti af því að læra, áskoranir séu eftirsóknarverðar og að vinnusemi muni skila honum árangri að lokum. Það sem skilur á milli nálgunar gróskuhugarfars annars vegar og fastmótaðs hugarfars hins vegar gerir gæfumuninn. Hvernig hugarfar við temjum okkur er geysilega mikilvægt því það á þátt í svo mörgum ákvörðunum okkar á hverjum degi. Fram undan er tækifæri til að byggja upp nýjar venjur, losa sig við slæma siði og upplifa breyttan veruleika um stund.

3 leiðir til að dekra við mjaðmirnar þínar

Kæri lesandi,

Það er ekki ólíklegt að mjaðmirnar þínar séu að fá að finna fyrir samkomubanninu. Við sitjum og liggjum eflaust meira en venjulega, og þess utan hreyfum okkur ívið minna en venjulega.

Þá er kjörið að dekra aðeins við mjaðmasvæðið með þessum góðu æfingum frá Valgerði Tryggvadóttur, sjúkraþjálfara afreksíþróttasviðsins.

Umsóknir fyrir landsliðsstyrk afreksíþróttasviðs fyrir vor 2020

Sæl öll,

Þá hefur verið opnað fyrir umsóknir í landsliðsstyrk fyrir þessa önn. Tímabilið er frá 1. janúar til ferða sem farnar hafa verið til 22. apríl á þessu ári.  Ég veit að það hafa margar ferðir fallið niður að undanförnu því miður og því eflaust færri umsóknir en ella.

Umsóknarform fyrir styrk (ATH. Aðeins aðgengilegt með @bhs.is tölvupóstfanginu ykkar)

Frá síðustu afhendingu fyrir haust 2019

með bestu kveðju,

Sveinn verkefnisstjóri

Af hverju notum við líkamlegar mælingar?

Einn af meginþáttum námsmats á afreksíþróttasviðinu undanfarin ár hafa verið í formi líkamlegra mælinga. Líkamleg próf eru sjálfsagður þáttur í því að meta ástand íþróttamanns svo hægt sé að greina framfarir, gera áætlanir og læra um þjálfun líkamans. Það er þó alls ekki sama hvernig staðið er að þeim og hér verður farið yfir nokkur þau atriði sem þarf að hafa í huga við framkvæmd líkamlegra prófa.

Ein erfiðasta spurningin þegar kemur að sjálfum prófunum er sú hvaða próf ætti að leggja fyrir. Það sem skiptir mestu máli þar er samhengið, eða íþróttin sem viðkomandi æfir. Það er nefnilega svo að íþróttir, og jafnvel leikstöður eða ólíkar keppnisgreinar innan íþrótta gera mjög mismunandi líkamlegar kröfur á okkur sem íþróttafólk. Hvaða íþrótt við erum að þjálfa í dag er svo samspil þeirra eiginleika sem fá að njóta sín í íþróttinni (íþróttin velur þig), og okkar áhuga.

Prófin þurfa að vera áreiðanleg, þ.e. að segja að mæla sama þáttinn eins, aftur og aftur og réttmæt. Það þýðir að þau þurfa að mæla það sem þau eiga að vera að mæla, og verður réttmætið alltaf metið af því hvaða próf er lagt fyrir hvern. Þolpróf fyrir sundmann verður því að fara fram í lauginni og hjólreiðafólk ætti að fá mælinguna sína á hjóli til að fá sem gagnlegastar niðurstöður svo tvö dæmi séu tekin.

Næst kemur spurningin um hvaða próf veita okkur bestu upplýsingarnar? Þau próf sem eru hvað líkust keppni eru talin sérhæfð og ættu að gefa okkur góðar vísbendingar um hvernig þjálfunin hefur tekist undangengin misseri. Vandinn við slík próf er að þau verða oft ansi flókin og tæknileg í útfærslu því hreyfingar eru í eðli sínu flóknar líkt og þær koma fyrir í íþróttinni sjálfri. Ef ætlunin að mæla oftar en einu sinni (sem ég mæli eindregið með), þá er hagkvæmara (tími, aðstaða, peningar) að velja próf sem eru frekar almenn (ekki keppnislík). Kostir þeirra eru m.a. að þau taka stuttan tíma, viðmið eru aðgengileg, þau eru ódýr, einfalt að gera aftur seinna á sama hátt.

Hér komum við svo að þeim þætti sem oftast klikkar og er einna tímafrekastur. Það er hvað gert er við gögnin eftir að tölum hefur verið safnað. Í okkar tilviki eru tölurnar notaðar til að búa til líkamlega einkunn, og til að upplýsa ykkur um stöðuna ykkar þar sem þið hafið aðgang að þeim til að meta og bera saman við fyrri árangur.

En hvað er góður árangur? Þarf ég að bæta mig í hvert skipti? Hvað er mikil bæting og hvað er lítil? Þessar spurningar eru eðlilegar þegar niðurstöðurnar liggja fyrir. Til að túlka þær og meta þróunina frá einum tímapunkti til annars er að ýmsu að hyggja. Að því gefnu að framkvæmd prófanna sé eins og áreiðanleg milli tveggja tímapunkta eru veigamestu þættirnir til túlkunar eru m.a.;

  • aldur íþróttamanns
  • líkamlegur þroski sérstaklega í kringum kynþroska
  • þjálfunaraldur
  • tímasetning á æfingatímabili
  • fyrri árangur íþróttamanns
  • meiðsli
  • dagsform
  • andlegir þættir á borð við áhuga, skuldbindingu og sjálfstraust
  • endurgjöf og eftirfylgni við niðurstöður prófa

með bestu kveðju

Sveinn Þorgeirsson