12 afhending landsliðsstyrks fyrir vorið 2020

Líkt og annað í starfi afreksíþróttasviðsins á síðari hluta þessarar annar var afhending landsliðsstyrks fyrir önnina ólík því sem áður hefur verið. Afhendingin var rafræn í þetta skiptið og á myndinni má sjá hver það voru sem hlutu styrk. Það þarf ekki að koma á óvart að styrkirnir eru færri en oft áður vegna fjölda utanlandsferða sem var aflýst nú í vor.

Frá rafrænni afhendingu landsliðsstyrks fyrir vorið 2020 (12. skiptið). Frá vinstri, Elín (íshokkí), Brynjólfur og Ragna (sund), Valdís (blak) og Þórður (karate).

Til hamingju öll og gleðilegt sumar!

Hvernig er umgjörðin á afreksíþróttasviðinu?

Hvað fæ ég fyrir efnisgjaldið sem fylgir því að vera á afreksíþróttasviðinu? Til að upplýsa umsækjendur, forráðafólk og nemendur hvað það er sem felst í efnisgjaldinu sem fylgir því að vera á afreksíþróttasviðinu höfum við tekið saman það helsta.

Markmiðið með innheimtu efnisgjaldsins er að geta búið nemendum sem bestu umgjörð til æfinga og þann stuðning sem þarf hverju sinni. Vekjum athygli á því að kostnaður við laun fastra kennara er greiddur af skólanum og fellur því ekki undir þetta gjald sem er 40.000 kr. á önn.

Myndin er jafnan tekin skömmu eftir að fatnaður hefur verið afhentur. Í fyrra sömdum við við Sportmenn um að vera í fatnaði frá adidas.

Fatnaður nemenda til æfinga er innifalin. Við leggjum upp með að allir séu í eins æfingafatnaði merktum sviðinu. Við teljum að þetta sé mikilvægt til að búa til heildarbrag á nemendahópinn þar sem nemendur koma úr ólíkum greinum og íþróttafélögum, saman í námið við Borgarholtsskóla. Innifalið er tvöfalt æfingasett af bolum, stuttbuxum og sokkum, síðerma æfingatreyja ásamt íþróttatösku fyrir nýnema, og einfalt æfingasett ásamt síðarma treyju fyrir nemendur á 2. og 3. ári.

Búnaður til æfinga á að vera fyrsta flokks og til að hafa hann sem bestan þarf að endurnýja  bolta, teygjur, vesti, keilur og fleira.

Nýnemar fara í sérstaka nýnemaferð sem er í grunninn hópeflisferð þar sem farið er út á land og dagurinn jafnan skipulagður að hausti. Til stendur í fyrsta skipti að fara með nemendur á 2. og 3. ári í ferðir út á land einu sinni á ári. Þessar ferðir eru námsferðir og verða skipulagðar í kringum það námsefni sem verður til umfjöllunar á þeim tíma sem farið er. Lagt verður upp með að fara á þeim tíma sem veldur minnstu raski á íþróttaþátttöku með íþróttafélagi.

Nemendur sem hafa náð þeim árangri að komast í landslið í sinni íþrótt og farið erlendis tengt verkefnum á þeirra á vegum fá landsliðsstyrk sem nemur allt að 25.000 kr. á hverri önn. Um þennan styrk gilda sérstakar reglur sem byggja m.a. á námsárangri og ástundun. Styrkurinn  fæst styrkurinn greiddur gegn framvísun flugmiða. Hugmyndin á bakvið þennan styrk er að styrkja nemendur sem hafa náð þessum góða árangri að keppa fyrir landsliðið sem oftar en ekki fylgir aukinn kostnaður.

Nemandi á afreksíþróttasviðinu sem nær bestum námsárangri (hæsta meðaleinkunn úr öllum 6  AFR áföngum) í AFR áfangunum af útskriftarhópnum fær POLAR púlsúr til viðurkenningar við útskrift.

Nemendur á afreksíþróttasviði eru tryggðir gegn alvarlegum meiðslum eins og nánar er tilgreint í samningi við TM á vefsíðu sviðsins www.bhs.is/afreks.

Aðgangur að sundlaug Grafarvogs á skólatíma fæst gegn framvísun nemendaskírteinis afreksíþróttasviðsins.

Nemendur sem lenda í alvarlegu meiðslum eða veikindum til lengri tíma bjóðast einstaklingsviðtöl við sérfræðinga til að stuðla að sem bestu bataferli og endurkomu í íþróttina þeim að kostnaðarlausu. Í boði er viðtal við íþróttasálfræðiráðgjafa, næringarfræðing og sjúkraþjáfara. Nemendur og forráðamenn geta óskað eftir þessari þjónustu af eigin frumkvæði við þessar aðstæður. Við höfum getað leiðbeint nemendum og forráðafólki og vísað á viðeigandi sérfræðinga ef þeir eru ekki nú þegar í ferli.

Tækifærisviðburðir á borð við heimsóknir í aðra skóla og ráðstefnur hafa verið hluti af námi skólans og hefur afreksíþróttasviðið staðið straum af þeim kostnaði sem hlýst af því að mestu eða öllu leiti.

Viðburður á skóhlífadögum – sameiginlegur morgun með afrekssviði MK

Dagskrá nemenda afreksíþróttasviðsins á Skóhlífadögum hefur undanfarin ár verið að hluta skipulögð af sviðinu. Þar hafa margir flottir fyrirlesarar komið til okkar og boðuð upp á ýmsar veitingar með.

Skólinn hefur undanfarin ár sent nemendur í námsferðir erlendis í gegnum styrkt verkefni og á sama hátt tekið á móti nemendum. Við slíkar ferðir hefur fellur stundum til kosntaður við mótttöku nemenda og það að senda okkar fólk út.

Nemendur frá VOSS með okkar fólki í ferð í Bláa Lóninu.

Þess má að auki geta að allir nemendur við Borgarholtsskóla hafa aðgang að World Class í Egilshöll á skólatíma.

Þess má að auki geta að gjaldið hefur haldist óbreytt frá stofnun sviðsins árið 2008.

Þetta er það helsta þegar kemur að því að svara spurningunni, “hvað er verið að greiða fyrir með efnisgjöldum á afreksíþróttasviðinu?”

svör við fyrirspurnum veitir Sveinn Þorgeirsson á sveinn@bhs.is

Gróska í faraldri

Vikurnar áður en samkomubannið tók gildi fjallaði fræðsluþema afreksíþróttasviðsins um gróskuhugarfar (e. growth mindset). Rannsóknir hafa sýnt að með fræðslu um eiginleika og kosti þessa hugarfars má bæta árangur í leik og starfi. Þetta hugarfar hefur nefnilega tengingu við svo margt sem við fáumst við í daglegu lífi og í okkar tilfelli skóla og íþróttum.

            Það má til einföldunar stilla upp tveimur valkostum við það hvernig við nálgumst erfið verkefni eins og áskoranir og mistök. Við getum litið á þær sem ógn og þannig forðast þær og kviðið fyrir þeim. Sú nálgun hefur verið kölluð fastmótað hugarfar (e. fixed mindset) og er það ekki vænlegt til árangurs. Hún leiðir til þess að við höldum okkur við það sem við vitum að við getum, prófum fátt nýtt og förum síður út fyrir þægindarammann. Þetta kemur heim og saman við helstu einkenni fastmótaðs hugarfars – það er að hafa ekki þá trú að viðkomandi geti tileinkað sér þá færni sem til þarf.

            Þau okkar sem hafa ræktað með sér gróskuhugarfar í mistökum og áskorunum takast á við mistök og áskoranir á annan hátt. Þó áskorunin sé mikil og færnin ekki til staðar þýðir það ekki að svo verði alltaf hafi viðkomandi tileinkað sér gróskuhugarfar. Hann trúir því að mistök séu hluti af því að læra, áskoranir séu eftirsóknarverðar og að vinnusemi muni skila honum árangri að lokum. Það sem skilur á milli nálgunar gróskuhugarfars annars vegar og fastmótaðs hugarfars hins vegar gerir gæfumuninn. Hvernig hugarfar við temjum okkur er geysilega mikilvægt því það á þátt í svo mörgum ákvörðunum okkar á hverjum degi. Fram undan er tækifæri til að byggja upp nýjar venjur, losa sig við slæma siði og upplifa breyttan veruleika um stund.

3 leiðir til að dekra við mjaðmirnar þínar

Kæri lesandi,

Það er ekki ólíklegt að mjaðmirnar þínar séu að fá að finna fyrir samkomubanninu. Við sitjum og liggjum eflaust meira en venjulega, og þess utan hreyfum okkur ívið minna en venjulega.

Þá er kjörið að dekra aðeins við mjaðmasvæðið með þessum góðu æfingum frá Valgerði Tryggvadóttur, sjúkraþjálfara afreksíþróttasviðsins.

Umsóknir fyrir landsliðsstyrk afreksíþróttasviðs fyrir vor 2020

Sæl öll,

Þá hefur verið opnað fyrir umsóknir í landsliðsstyrk fyrir þessa önn. Tímabilið er frá 1. janúar til ferða sem farnar hafa verið til 22. apríl á þessu ári.  Ég veit að það hafa margar ferðir fallið niður að undanförnu því miður og því eflaust færri umsóknir en ella.

Umsóknarform fyrir styrk (ATH. Aðeins aðgengilegt með @bhs.is tölvupóstfanginu ykkar)

Frá síðustu afhendingu fyrir haust 2019

með bestu kveðju,

Sveinn verkefnisstjóri