Kynningaræfing á afrekinu fyrir 9. og 10. bekk

Nemendum í 9. og 10. bekk er boðið á sérstaka kynningaræfingu á afrekinu. Æfingin verður í formi hraðaþjálfunar og viðbragðs í bland við sálfræðilega ráðgjöf. Til að taka þátt í æfingunni þarf að mæta stundvíslega í íþróttafatnaði og innanhússskóm.

Þarna gefst nemendum einnig tækifæri á að kynnast sviðinu og spyrja verkefnisstjóra og kennara um fyrirkomulagið.

Æfingin fer fram í Fjölnishöll, fjölnotaíþróttasal Egilshallar. Gengið er inn um aðalinngang, framhjá fimleikum og inn eftir ganginum að stóra salnum.

Hlökkum til að sjá ykkur á mánudaginn!

Með umsjón æfingarinnar fara Sveinn Þorgeirsson og Hreiðar Haraldsson

Mafían tók okkur fyrir…

Í metnaðarfullu nemendablaði sem kom út nýverið var fjallað um sviðið okkar og nemendur. Það var sérstaklega skemmtilegt og vel gert 🙂 Tryggið ykkur eintak af Mafíunni!

Blaðið kom út nú nýverið
Við fengum heila opnu 🙂
Andrea fékk verðskuldaða umfjöllun

Góðar umræður um afreksíþróttastarf í framhaldskólum

Eftir dagskrá morgunsins á miðvikudeginum “Svefn, æfing og næring” tóku kennarar og nokkrir nemendur sviðsins þátt í umræðum um hvernig staðið er að afreksíþróttasviðum – hvað sé hægt að læra af starfinu í Danmörku og hvað við getum bætt hér heima.

Þetta var algjörlega frábært að fá góða gesti víðsvegar að. Margar áhugaverðar hugmyndir komu fram og munu þessar umræður eflaust hafa a.m.k. örlítil áhrif á það hvernig við störfum í framtíðinni.

Sérstakar þakkir fá Þórarinn Alvar Þórarinsson fyrir aðstoð við uppsetningu þessum viðburði og Danirnir Christian og Laurits fyrir kynninguna á starfinu í Skanderborg (SHEA).

Takk fyrir okkur!

Við í Borgarholtsskóla viljum nota tækifærið hér og þakka kærlega fyrir okkur. Þakka fyrirlesurum okkar, Siggu Láru frá HÍ (Svefn),

Inga Þór frá HR (Æfing) og 

Birnu frá Hæfi (Næring) fyrir frábær innlegg.

Sjálfur talaði verkefnisstjórinn  ykkar um mikilvægi þess að muna að árangur næst aldrei án aðstoðar baklandsins (fjölskyldu, vina og sérfræðinga), og mikilvægi þess að hlúa að jafnvægi í lífunu hvað varðar líkamlega, andlega og félagslega þætti. Leiðin að árangri er hvorki beinn né breiður vegur – heldur seinfær ómerktur slóði 🙂

Góða helgi!

FYRIRLESTRAR fyrir nemendur og foreldra!

Sæl öll,

Í tilefni af Skóhlífadaga, þemadaga Borgarholtsskóla verður efnt til fyrirlestra sem nemendur afreksíþróttasviðsins mæta á og forráðamönnum þeirra er einnig boðið að mæta. Fyrirlesararnir eru frábærir og efnistökin áhugaverð!

Hlökkum til að sjá ykkur miðvikudaginn 13. febrúar í SAMBÍÓunum Egilshöll, sal 2. Aðgangur fyrir forráðamenn er ókeypis.

með kveðju

 

 

Landsliðsstyrkur fyrir haust 2018 afhentur í Borgarholtsskóla

Miðvikudaginn 9. janúar var landsliðsstyrkur afreksíþróttasviðs afhentur

Frá 9. afhendingu landsliðsstyrks afreksíþróttasviðs Borgarholtsskóla fyrir haust 2018. Efri röð frá vinstri; Ásta aðstoðarskólameistari, Jónína, Þorleifur, Goði, Hafsteinn Óli, Arnar  (handbolti), Brynjólfur (sund), Þórður (karate), Kristófer og Dagbjartur (golf) og Sveinn verkefnisstjóri. Neðri röð frá vinstri; Sigvaldi (blak), Arnór (handbolti) Bergrún (frjálsar), Þórunn (borðtennis), Ragna (sund), Helga (frjálsar) og Axel (handbolti). Á myndina vantar Magnús Gauta (borðtennis).

Þau voru mörg og fjölbreytt verkefnin sem landsliðsfólkið okkar tók þátt í fyrir áramót. Hér erum við með yfirlit þeirra verkefna frá því fyrir áramót.

Sigvaldi í stólnum til hægri

Sigvaldi Örn blakmaður úr Aftureldingu var tvívegis valinn í landslið Íslands í blaki árið 2018. Hann var valinn í U-19 landsliðið sem tók þátt í NEVZA 2018 í Færeyjum í mars og í U-17 landsliðið sem tók þátt í NEVZA U-17 liða í Danmörku í október.

Magnús á vinstri hönd

Magnús Gauti borðtennismaður ársins 2018 hjá sínu sérsambandi tók þátt í Evrópumóti fullorðinna í Alicante dagana 18 – 23. september. Mótið var afskaplega erfitt segir Magnús en víst að þarna hefur hann nælt sér í góða reynslu enda ungur að árum.

Þórunn lengst til vinstri

Þórunn Ásta borðtenniskona fór til Eistlands með unglingalandsliðinu að keppa við stöllur sínar af Norðurlöndunum síðasta sumar og er reynslunni ríkari eftir þá ferð.

Bergrún Ósk íþróttakona fatlaðra keppti  á Evrópumeistaramóti fatlaðra í Berlín. Þar tók hún þátt í fjórum greinum 400m (4. sæti), 200m (3ja sæti), 100m (3ja sæti) og langstökki (2. sæti) ásamt því að bæta persónulegan árangur í öllum greinunum. 

Helga hér til hægri

Helga Þóra var valin til að taka þátt á Norðurlandamótinu U20 í Danmörku í Hvidovre þar sem hún tók þátt í  hástökkskeppni fyrir hönd Íslands og Danmerkur (sameiginlegt lið) og stökk hún 1,66 metra sem er aðeins frá hennar besta sem er 1,74m og endaði í 6. sæti.

Dagbjartur kylfingur keppti með landsliðsliði pilta á síðasta ári og vann það sér rétt til þátttöku í A- deild  með árangri sínum. Dagbjartur hefur verið mjög duglegur að taka keppa undanfarið ár og hefur það gengið mjög vel og hann er m.a.  Íslandsmeistari í sínum aldursflokki 2 ár í röð og Klúbbmeistari GR.

Kristófer Karl golfari keppti fyrir Íslands hönd á EM í Búdapest. Þar tók hann átt í liðakeppni þar sem þeir drengir lönduðu 3. sæti og komust upp í aðra deild.

Hafsteinn Óli í efri röð fyrir miðju nr. 10, Þorleifur 4. frá hægri í efri röð. Neðri röð frá hægri, Arnór Snær, Goði Ingvar og Arnar Máni.

Hafsteinn Óli, Goði Ingvar, Arnar Máni, Arnór Snær og Þorleifur Rafn handboltamenn tóku þátt með U18 ára landsliði Íslands á EM í Króatíu síðasta haust. Þar var árangurinn hreint út sagt frábær og hafnaði liðið í 2. sæti.

Axel neðst til vinstri

Axel Hreinn ásamt fleirum af afrekssviðinu keppti með U18 á Sparkassen móti með handboltalandsliðinu milli jóla og nýárs. Liðið hafnaði í 3ja sæti eftir gott mót.

Benedikt lengst til vinstri

Benedikt Gunnar keppti á æfingamóti með U-17 ára landsliði í handbolta. Leikið var í Lille í Frakklandi 24. – 28. október sl.. Liðin sem tóku þátt voru auk Íslands, Frakkland, Króatía og Sviss. Liðið vann einn leik, gerði eitt jafntefli og tapaði einum.

Þórður Jökull karate maður keppti á tveim alþjóðlegum mótum með landsliði Íslands nú í haust. Í byrjun september keppti hann á Finnish Open Cup í Helsinki í tveim flokkum, í kata junior og í kata senior. Í lok nóvember keppti hann á Norðurlandameistaramótinu í karate í kata junior og hópkata karla (male team kata).

Jónína nr. 18 í efri röð

Jónína  Hlín handboltakona fór ásamt U18 ára landsliði kvenna til Púchov í Slóvakíu. Þar kepptu þær þrjá vináttulandsleiki við Slóvakíu. Þær töpuðu fyrstu tveimur leikjunum en sigruðu seinasta leikinn.

Brynjólfur Óli sundmaður fór fyrst til Argentínu að keppa á Youth Olympic Games sem var haldið í Buenos Aires í október. Þar keppti hann í 50 og 200m baksundi. Þá keppti hann á Norðurlandameistaramótinu sem var haldið í Finnlandi í 50, 100 og 200m baksundi, og komst inn í úrslit og bætti sig í 100 og 200 baki.

Ragna í neðri röð, fjórða frá hægri

Ragna Sigríður sundkona fór á Norðurlandameistaramótið sem fór fram í Oulu í Finnlandi þar sem henni gekk vel og komst hún í úrslit með persónulegum bætingum.

Til hamingju öll – og haldið áfram þessu góða striki!

Sveinn Þorgeirsson, verkefnisstjóri