Afreksæfingar byrjaðar

Æfingar eru byrjaðar á fullu í knattspyrnu, golfi, handbolta og körfubolta á afreksíþróttasviði Borgarholtsskóla. Við fögnum nýnemunum sem eru 42 að þessu sinni. Hópurinn lítur vel út og passar vel inní prógrammið.

Framundan eru mælingar hjá nýnemum, hlaupagreining og líkamsbeiting. Í framhaldi af því fara nýnemar í forvarnaræfingar hjá Ásmundi Arnarsyni sjúkraþjálfara.

 

Íþróttahátíð afreks tókst vel

Við enduðum veturinn á íþróttahátíð þar sem keppt var í handbolta, fótbolta, körfu og golfi að sjálfsögðu. Mikil keppni hljóp í mannskapinn og stemningin góð í liðunum.

Í lokin var það svo karfan sem hampaði sigrinum:

1 sæti – Karfan (2-2-2-1) = 27 stig

2 sæti – Handbolti (4-1-1-2) = 24 stig

3 sæti – Fótbolti (1-3-3-3) = 18 stig

4 sæti – Golf (3-4-4-4) = 3 stig

Fengum okkur svo pizzu og kók enda má það einu sinni á ári, ekki oftar.

Nokkuð ljóst er að keppnin að ári verður jafnhörð ef ekki harðari enda skemmtilegur lokapunktur á skólaárinu.

Handboltinn til Frakklands

Snemma í janúar var ákveðið að fara með hóp nemenda við afreksbraut handboltans í Borgarholtsskóla í ferð til Nantes í Frakklandi. Strax eftir vorprófin, þann 14. maí, verður haldið af stað í þessa tæplega viku löngu ferð.

Nemendurnir munu æfa mikið fyrri hluta ferðarinnar og gista á heimavist í samstarfi við félagið HBC Nantes. Helgina 18.-19. maí fer fram úrslitahelgin í EHF Cup og mun hópurinn fara á báða undanúrslitaleikina sem og úrslitaleikinn á sunnudeginum. Í þeirri keppni taka stór lið þátt á borð við Rhein-Neckar Löwen, Kolding, Team Tvis Holstebro, Magdeburg, Göppingen, Wisla Plock og heimaliðið Nantes.

Þetta er gríðarlega spennandi tækifæri fyrir nemendur brautarinnar því þarna fær hópurinn að komast í mikla nálægð við atvinnumannaliðið HBC Nantes sem Fjölnismaðurinn Gunnar Steinn Jónsson leikur með. Með liðinu leika þrír Spánverjar sem í janúar urðu heimsmeistarar á heimavelli. Þess má geta að Gunnar Steinn hefur hjálpað hópnum mikið við skipulagningu ferðarinnar og gert hana mögulega.

Það er stefnan að fara reglulega út með hópinn og er þessi ferð svo sannarlega góð byrjun. Brautin hefur aðeins verið starfandi í tæp tvö ár og hefur gengið prýðilega. Leikmenn koma frá fjórum liðum og eru kynjahlutföllin alveg jöfn 7 og 7.

Nú í vor verður tekið við umsóknum fyrir næsta haust. Nánari upplýsingar má nálgast á vefsíðu afreksíþróttasviðs.

Nánari upplýsingar veitir Sveinn Þorgeirsson handboltakennari á afreksbraut, sveinn@bhs.is, s. 697 5098